Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 494, 112. löggjafarþing 218. mál: almannatryggingar (tannlæknaþjónusta).
Lög nr. 122 29. desember 1989.

Lög um breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við c-lið 39. gr. laganna bætist nýr málsliður sem orðist svo: Ráðherra setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að fengnum tillögum tryggingaráðs.

2. gr.

     1. málsl. 3. mgr. 39. gr. laganna orðist svo:
     Tryggingaráð setur reglur um greiðslu styrkja samkvæmt a- og b-liðum.

3. gr.

     B-liður 43. gr. laganna orðist svo:
     Nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir hjá sérfræðingum og stofnunum sem Tryggingastofnun ríkisins hefur samning við. Auk reikningsforms lætur Tryggingastofnun ríkisins útbúa sérstök eyðublöð í samráði við samningsaðila með það að markmiði að tryggja fagleg samskipti milli sérfræðinga innbyrðis og milli sérfræðinga og heimilislækna eða heilsugæslulækna. Fyrir hverja komu til sérfræðings greiði sjúklingur sérfræðingi gjald sem ákveðið skal með reglugerð.

4. gr.

     44. gr. laganna orðist svo:
     Fyrir tannlæknaþjónustu greiða sjúkratryggingar í samræmi við samninga sem Tryggingastofnun ríkisins hefur gert eða samkvæmt gjaldskrá sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra setur séu samningar ekki fyrir hendi sem hér segir, enda sé reikningi framvísað á því reikningsformi sem Tryggingastofnun ríkisins ákveður:
  1. Fyrir börn 5 ára eða yngri 75% kostnaðar við hvers konar þjónustu.
  2. Fyrir börn og unglinga 6–15 ára 100% kostnaður við tannlækningar, aðrar en gullfyllingar, krónu- og brúargerð og tannréttingar. Heimilt er að greiða allt að 50% kostnaðar við gullfyllingar, krónu- og brúargerð og við tannréttingar samkvæmt reglum sem ráðherra setur að höfðu samráði við tryggingaráð. Í reglunum skal m.a. kveðið á um flokkun þessara tannlækninga og þátttöku sjúkratrygginga í þeim eftir eðli aðgerða. Þjónustan samkvæmt þessum tölulið skal veitt hjá skólatannlæknum og á heilsugæslustöðvum, nema annað sé talið hagkvæmt og um annað samið. Því aðeins kemur til greiðslna samkvæmt þessari grein þegar í hlut eiga gullfyllingar, krónu- og brúargerð og tannréttingar að fyrir liggi sérstök umsókn þar sem m.a. komi fram flokkur tannréttingar þar sem það á við og samþykki sjúkratrygginga.
  3. Fyrir 16 ára unglinga 50% kostnaðar. Greiðslur fyrir gullfyllingar, krónur, brýr og tannréttingar skulu vera í samræmi við reglur 2. tölul.
  4. Fyrir unglinga, þótt eldri séu en 16 ára, er heimilt að greiða allt að 50% kostnaðar við tannréttingar í samræmi við reglur sem ráðherra setur að fengnum tillögum tryggingaráðs, sbr. 2. tölul., enda hafi meðferð hafist áður en þeir urðu 16 ára. Heimilt er að greiða 50% kostnaðar við aðgerðir 17 og 18 ára unglinga eftir sömu reglum hafi þörfin komið upp fyrr og eftirlitsaðila samkvæmt síðustu málsgrein þá verið gerð grein fyrir því eigi síðar en unglingurinn verður 17 ára að rétt sé að fresta aðgerðinni.
  5. Fyrir elli- og örorkulífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, 75% kostnaðar, en fyrir aðra elli- og örorkulífeyrisþega 50% kostnaðar, þó ekki fyrir gullfyllingar, krónur eða brýr. Heimilt er að hækka greiðslur fyrir þessa bótaþega eftir reglum, sem tryggingaráð setur, í allt að 100%.

     Tryggingaráð ræður tannlækni sem hefur eftirlit með framkvæmd ákvæða laga þessara er lúta að tannlækningum.

5. gr.

     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1990.

Ákvæði til bráðabirgða.
     Hafi tannrétting að lokinni skoðun sannanlega hafist fyrir 1. nóv. 1989 skal henni lokið samkvæmt eldri ákvæðum.
     Á árinu 1990 greiðir ríkissjóður tvo þriðju hluta framlags skv. 2. tölul. 2. mgr. 4. gr. og sveitarfélög einn þriðja.

Samþykkt á Alþingi 22. desember 1989.